30. október 2019
Allnokkur áhugi virðist vera á „vísindaheimsóknum“ háskólanema í Regluheimilið. Þannig hefur Erindreki Reglunnar þegar bókað þrjár slíkar heimsóknir á yfirstandandi starfsári (2019-2020) og eitt nemendafélag til viðbótar hefur haft samband.
Nýverið kom hópur úr nemendafélaginu Soffíu, félagi heimspekinema við Háskóla Íslands, í heimsókn. Nemendurnir fengu kynningu á sögu Frímúrarahreyfingarinnar í gegnum árhundruðin, sögu og þróun sænska kerfisins, sögu frímúrarastarfs á Íslandi í 100 ár og sögu Frímúrarareglunnar á Íslandi og uppbyggingu hennar og samstarfi við aðrar Reglur Frímúrara í heiminum.
Eftir kynninguna var gefinn góður tími til fyrirspurna og óformlegra samtala um allt það sem nemendurnir óskuðu eftir að ræða og var greinilegur áhugi nemanna á fjölmörgum umræðuefnum er varða söguna, hugmyndafræðilega hluti, uppbyggingu og áhersluatriði frímúrarastarfsins.
Nemendunum var síðan boðið upp á veglegar veitingar frá Bernhöftsbakaríi og að því loknu, var gengið með þeim í Minjasafn Reglunnar þar sem enn frekari fyrirspurnum þeirra um það sem fyrir augu bar var svarað. Það er okkur sem á móti þeim tóku, mikil ánægja að geta orðið við þessum óskum um heimsóknir af þessu tagi og vonandi hefur okkur tekist að svala þekkingarþorsta þessa kurteisa og myndarlega háskólafólks, að einhverju marki.
Eiríkur Finnur Greipsson ER
Jóhann Heiðar Jóhannsson nefndarmaður í Fastanefnd ER
Einar Thorlacius Mv.R.